Ferill 660. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1061  —  660. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um svæðisbundna flutningsjöfnun.


     1.      Hver var þróun framlags ríkisins til flutningsjöfnunarstyrkja til framleiðenda skv. II. kafla laga nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, á árunum 2011–2023 á verðlagi ársins 2023?
    Flutningsjöfnunarstyrkjum til framleiðenda var úthlutað í fyrsta skipti árið 2013 vegna flutningskostnaðar ársins 2012. Taflan sýnir þróun framlaga til jöfnunar flutningskostnaðar til framleiðenda árin 2013–2023.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hefur farið fram greining á flutningskostnaði sambærileg þeirri sem birtist í greinargerð með frumvarpi til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun (þskj. 447 á 140. löggjafarþingi) eftir að lögin tóku gildi til þess að meta hvort tilefni sé til þess að breyta því til hvaða styrksvæða sveitarfélög teljast?
    Hinn 1. janúar sl. urðu nokkrar breytingar á fyrirkomulagi á útreikningi framlaga:
               Endurgreiðsluhlutfall flutningskostnaðar er hækkað þannig að framleiðendur á svæði þar sem sérstaklega er þörf á byggðastuðningi og er nánar skilgreint í lögunum geti sótt um 20% endurgreiðslu á flutningskostnaði ef lengd ferðar er 150–390 km og 30% endurgreiðslu ef ferð er lengri en 390 km. Framleiðendum á öðrum svæðum verði gert kleift að sækja um 10% endurgreiðslu ef lengd ferðar er 150–390 km en 15% endurgreiðslu ef ferð er lengri en 390 km. Lágmarksvegalengd er skilgreind 150 km en var áður 245 km.
               Hins vegar er sú breyting gerð að styrkveitingar verða ekki lækkaðar hlutfallslega á samþykktum umsóknum sem eru lægri en 1,25% af heildarfjárveitingu hvers árs. Áhrif þeirrar breytingar, að öðru óbreyttu, verða þær að minni framleiðendur munu fá hærri flutningsjöfnunarstyrk á kostnað stærri framleiðenda.
    Forsaga þeirra breytinga er sú að í þjónustukönnun ráðuneytisins og stofnana á vegum þess sem fram fór haustið 2022 barst ráðuneytinu ábending um að flutningsjöfnunarstyrkir sem veittir eru á grundvelli laganna skiluðu sér ekki með nægilega sanngjörnum hætti til minni framleiðenda. Ráðuneytið leitaði eftir afstöðu Byggðastofnunar vegna framkominnar ábendingar og í svari stofnunarinnar sagði að borið hefði á gagnrýni frá umsækjendum um að lægstu styrkir væru of lágir en þeir sem sæktu um lægstu styrkina væru almennt þeir sem stæðu höllustum fæti vegna smæðar sinnar. Hættu þeir að sækja um myndu styrkfjárhæðir til stærri aðila hækka og samkeppnisstaða minni aðila versna. Þá benti stofnunin á að í skýrslum ráðherra undanfarin ár um framkvæmd flutningsjöfnunarstyrkja kæmi fram að tíu stærstu styrkhafar hefðu fengið um og yfir 50% af útgreiddum styrkjum. Því hafi verið ákveðið að gera breytingar á úthlutunarreglum svæðisbundinnar flutningsjöfnunar, m.a. til að auka styrkveitingar til minni framleiðanda.

     3.      Hefur farið fram greining á því hvort efri mörk lengdar ferðar, 390 km, mismuni fyrirtækjum í samkeppni sem búa við sambærilegan flutningskostnað en starfa nálægt hvort öðru, t.d. þar sem annað fyrirtækið er staðsett innan við 390 km frá höfuðborgarsvæðinu en hitt er staðsett lengra í burtu, svo sem á Akureyri og Svalbarðseyri? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar greiningar?
    Nei, ekki hefur verið gerð nákvæm greining á því.